Karellen
news

Jólakveðja

23. 12. 2022

Nú styttist í að árið 2023 hefjist og langar mig því að líta yfir árið 2022 í starfi leikskólans. Árið hefur verið viðburðaríkt og hefur kennt okkur margt.

Í janúar þurftum við að vera með skiptingu á milli svæða og máttu starfsmenn ekki fara á milli heldur voru á sínum svæðum. Þetta var gert vegna sóttvarnaaðgerða sem voru í landinu á þessum tíma út af Covid. Við gátum haldið úti starfi þar til í byrjun mars þegar við þurftum að loka deildum vegna covid veikinda starfsmanna í fjóra daga. Eftir það höfum við náð að halda opnu þrátt fyrir mikil veikindi í haust og vetur fyrir utanað við þurftum að senda börn heim af tveimur deildum part úr degi í desember.

Í maí útskrifuðust hjá okkur 18 börn sem hófu flest sína grunnskólagöngu í Hvolsskóla í haust. Í ágúst var samstarf við Hvolsskóla um að elstu börn leikskólans ásamt verðandi 1 og 2 bekk gafst kostur á vistun í Skólaskjóli fyrir skólasetningu Hvolsskóla í haust. Það voru þónokkrir sem nýttu sér þessa þjónustu og vonandi verður áframhald á þessu samstarfi.

Við höfum verið að innleiða handbókina okkar um snemmtæka íhlutun í máli og læsi ásamt því að við erum að þróa enn frekar starfið okkar í útkennslu. Þóra Sigurborg tók að sér að sjá um útikennsluverkefnið ásamt starfsmönnum Undralands og Tónalands. Hefur útikennslan vakið mikla lukku og gaman að sjá börnin í gönguferðum um allan bæ, þau fara í heimsóknir í fyrirtæki og ganga upp á Hvolsfjall. Eina reglan í útikennslunni er að það á að vera gaman.

Við ákváðum að setja meiri áherslu á útikennsluna m.a. vegna þess að vinnuaðstæður barna og starfsfólks er ekki eins og best er á kosið og ekki eru leiktæki við allar starfsstöðvar okkar. Við höfum aftur á móti tekið eftir því að börn leika sér allt öðruvísi þegar tilbúinn efniviður (leiktæki) eru ekki til staðar og það hvetur þau til meiri samskipta í leik á útisvæðum Tónalands og Ævintýralands. Börnin hafa sýnt ótrúlega aðlögunarhæfni í þessum aðstæðum og þó svo að þau fari á leiksvæði leikskólans þá sækja þau ekkert endilega í leiktækinn þar því þau hafa lært að leika sér á annan hátt.

Við erum rík af fjölbreyttum starfsmannahópi innan leikskólans og ég er mjög stolt af mínum starfsmannahóp. Við erum vel mönnuð hæfileikaríku starfsfólki. Menntunarstig fer hækkandi innan hópins þó við eigum enn langt í land að uppfylla lög um að 2/3 starfsfólks eigi að vera með kennararéttindi. Við þurfum að manna þrjú stöðugildi vegna undirbúnings vikulega þar sem undirbúningur kennara er kjarasamningsbundinn. Einnig erum við með þrjá nema í leikskólakennarafræðum, einn nema í þroskaþjálfafræðum og einn nema í sálfræði.

Starfsmenn hafa metnað til að gera enn betur og hefur það sýnt sig í þessum aðstæðum undanfarin ár. Það hafa oft á tíðum verið krefjandi aðstæður en starfsfólkið hefur tekið jákvæðnina með sér í vinnuna og það er alls ekki sjálfsagt að velja jákvæðnina og maður hefur aldrei orðið var við uppgjöf í hópnum þó þreyta hafi alveg gert vart við sig.

Þetta árið höfum við verið að gera hluti í „síðasta“ skiptið í þessum aðstæðum og það verður heldur ekki leiðinlegt að geta sagt að við flytjum í nýja byggingu á þessu ári sem við getum gert þann 1. janúar 2023. Starfsmannahópurinn fór í skoðunarferð í Ölduna í nokkrum hópum í nóvember og tóku starfsmenn Jáverks mjög vel á móti okkur og þökkum við þeim kærlega fyrir það.

Það var mikið að gera í október og nóvember því þá voru foreldrakynningar, foreldraviðtöl og foreldraþing og munum við ekki skipuleggja þetta á þennan hátt aftur. Þegar við verðum flutt í Ölduna munum við hafa frjálsari hendur með svæði og tímasetningar þannig að hægt verði að dreifa betur viðburðum.

Í haust héldum við barnaþing, starfsmannaþing og foreldraþing vegna uppfærslu á skólanámskrá leikskólans og nú er verið að leggja lokahönd á þá vinnu og mun hún verða gefin út á nýju ári.

Árið 2022 var mjög viðburðaríkt og margt í gangi. Ég get þó sagt að okkur hlakkar til að flytja í Ölduna og vera öll á sama stað. Það að vera á þetta mörgum starfsstöðvum hefur stundum tekið á t.d. fyrir jólaball eldri barnanna því þar voru þrjár starfsstöðvar að hittast í Hvolnum. Starfsfólkinu mun heldur ekki leiðast að geta hist þvert á deildar í kaffitímum, útiveru og undirbúningi svo fátt eitt sé nefnt.

Árið 2022 hefur verið skemmtilegt, lærdómsríkt, krefjandi, viðburðaríkt og fullt af áskorunum sem við höfum tekist á við.

Eigið gleðileg jól og farsælt komandi ár með þökk fyrir gott samstarf á árinu 2022.

Jóla og áramótakveðja

Sólbjört Sigríður Gestsdóttir, leikskólastjóri.

© 2016 - 2023 Karellen