Karellen

Könnunaraðferðin

Könnunaraðferðin hentar sérstaklega vel með ungum börnum. Hún er skyld þemaaðferðinni eins og hún er þekkt í íslenskum grunnskólum og leikskólum, en hún tengist einnig námsaðferðinni sem er beitt í anda leikskólanna í Reggio Emilia. Allar þessar stefnur stuðla, hver á sinn hátt, að samvinnu milli nemanda og skapandi starfs.

Könnunaraðferðin (project approach) gengur út á það að tekið er fyrir ákveðið þema eða viðfangsefni og síðan er gerð ítarleg rannsókn á því út frá áhuga barnanna. Viðfangsefnið er venjulega tekið úr umhverfi sem börnin þekkja og það nálgast þannig að það hafi persónulega merkingu fyrir barnið. Viðfangsefnið getur verið ákvarðað hjá börnunum sjálfum eða kennaranum, en það er alltaf eðlislægur áhugi barnanna sem ræður ferðinni. Það er hægt að vinna með þessa aðferð með stóran eða lítinn hóp barna, í lengri eða skemmri tíma.
Aðalmarkmið könnunaraðferðarinnar er að þroska huga ungra barna og þá er ekki einungis verið að tala um hæfni og þekkingu, heldur líka um tilfinningalega-, siðferðilega- og fagurfræðilega þætti. Við göngum út frá því hvaða þekkingu barnið hefur og hvernig má efla hana. Við aðstoðum barnið við að afla sér upplýsinga um viðfangsefnið og skilgreinum hugtök þannig að það geri sér grein fyrir tengslum og merkingu viðfangsefnisins. Við hvetjum barnið til að spyrja spurninga og spyrjum barnið opinna spurninga, þannig náum við fram áhuga barnanna og getum æft þau í að styrkja hugsanavenjur sínar.

Í leikskóla erum við mikið að vinna með félagslega færni og könnunaraðferðin er góð leið til að styrkja hana, s.s. með hópavinnu, samræðum, að deila upplýsingum og reynslu og komast að samkomulagi. Félagsleg færni gengur m.a. út á að læra að gefa og þiggja, eiga vini, eiga samskipti við aðra og læra að skilja orsök og afleiðingu. Líðan barnsins meðan á vinnu verkefnisins stendur hefur mikil áhrif á hvernig til tekst, þess vegna er mikilvægt að verkefnið höfði til barnanna.

Börnin þurfa að læra að takast á við bæði velgengni og mistök og geta greint frá tilfinningum sínum. Hlutverk kennarans í könnunaraðferðinni er að skipuleggja og framkvæma verkefnið og leiða það áfram á forsendum barnanna.
Kennarinn þarf að vera vakandi fyrir spurningum barnanna, ræða þær hugmyndir sem koma upp og setja fram tilgátu um það sem verið er að athuga. Kennarinn þarf sem sagt að leiða verkefnið, hvetja börnin áfram, styðja þau og fá þau til að nýta þá þekkingu sem þau búa yfir.

Verkefnavinnan skiptis í þrjá hluta sem tákna upphaf, miðju og endir.:
1. hluti:
– Upphaf – það getur verið að lesa bók, skoða myndband, skoða hluti eða annað sem vekur áhuga nemenda.
– Þekkingarvefurinn er búinn til.
– Vinnuspurningar gerðar.
– bréf um verkefnið sent heim til foreldra
2. hluti:
– Undirbúningur að vettvangsferðum.
– Farið í vettvangsferðir.
– Úrvinnsla vettvangsferðanna ( umræður, hlutir, bækur)
– Heimsókn til sérfræðinga eða þeir koma í heimsókn.
3. hluti:
– Uppákoma ( sýning ) sem sýnir eða miðlar náminu sem hefur átt sér stað.Börnin með í því að skipuleggja hvernig það er sett fram
– Mat á því hvernig til tókst
– Niðurstaða síðasta verkefnis getur kveikt hugmynd að næsta verkefni

(http://gardasel.is/nemendur/vik/konnunaradferdin/)


© 2016 - 2023 Karellen