Karellen

Kæru foreldrar.

Um leið og við bjóðum ykkur og barnið ykkar velkomin í leikskólann Örk, viljum við veita ykkur

upplýsingar um ýmis atriði sem tengd eru starfsemi leikskólans og nauðsynlegt er fyrir foreldra að vita.

Rangárþing eystra á og rekur Leikskólann Örk. Sveitastjóri hefur yfirumsjón með rekstri hans fyrir hönd sveitastjórnar og er hann næsti yfirmaður leikskólastjóra.

Leikskólinn Örk er fimm deilda leikskóli starfræktur á Hvolsvelli í þremur húsum sem heita Litli Dímon, Stóri Dímon og Undraland og eru með sameiginlegt útivistarrými. Deildirnar eru aldursskiptar og eru yngri börnin í Litla Dímon, á Draumalandi og Óskalandi, en eldri börnin eru í Stóra Dímon, á Ævintýralandi, Undralandi og Tónalandi. Um 100 börn stunda nám við leikskólann.

Árið 1973 gerði Kvenfélagið Eining könnun á þörf fyrir barnagæslu fyrir börn á aldrinum tveggja til sex ára. Í framhaldi af því var samþykkt að setja á stofn sumargæslu sem starfrækt var í Gagnfræðaskólanum á Hvolsvelli þar til samþykkt var að kaupa hús við Stóragerði 5 undir starfsemina. Kvenfélagið Eining studdi reksturinn í upphafi með myndarlegum fjárframlögum, bæði til kaupa á húsgögnum og leikföngum.

Nýr leikskóli sem stendur við Hvolsveg 35 var vígður við hátíðlega athöfn 29. mars 1994 hlaut nafnið Örk. Leikskólinn var tveggja deilda og hétu deildirnar Suðurstofa og Norðurstofa.

Fljótlega fór að myndast biðlisti eftir leikskólaplássi þannig að ákveðið var að kaupa Stóragerði 1a til að bæta við deild. Deildin var tekin í gagnið 8. september 2003 og fékk nafnið Hulduland og var deildin sniðin að þörfum yngstu barnanna. Deildirnar á Hvolsveginum fengu ný nöfn á sama tíma og heita nú Draumaland og Óskaland.

Leikskólinn stækkaði enn frekar í október 2005 þegar húsnæði Tónlistarskóla Rangæinga á Hvolsvegi 33 var tekið undir starfsemi leikskólans. Hlaut deildin nafnið Tónaland og þar eru eldri árgangar leikskólans til húsa.

Í ágúst 2008 var hætt að nota Hulduland vegna raka sem fannst þar í gólfum hússins og var ákveðið að breyta félagsmiðstöðinni sem starfrækt var að Hvolsvegi 33 í leikskóladeild sem hlaut nafnið Ævintýraland. Við þessa breytingu var eldhúsið einnig flutt af Huldulandi yfir í húsnæðið að Hvolsvegi sem og ný og endurbætt starfsmannaaðstaða. Í nóvember 2015 fengum við nýtt húsnæði á lóð leikskólans. Sú deild fékk nafnið Undraland.

Þegar sveitarfélögin sameinuðust í Rangárþingi eystra 2002, sameinaðist leikskólinn á Heimalandi leikskólanum Örk. Þann 22. mars 2003 var vígð ný bygging fyrir leikskóladeildina að Heimalandi og hlaut hún nafnið Paradís. Árið 2009 fækkaði börnum á deildinni mikið og var ákveðið að loka henni þar sem faglegar og fjárhagslegar forsendur voru ekki lengur fyrir hendi. Þeim börnum sem þar voru var þá boðið pláss á Hvolsvelli.

Nú er leikskólinn á Hvolsvelli 5 deilda og fyrirhugað er að byggja nýjan 8 deilda leikskóla í nánustu framtíð.© 2016 - 2022 Karellen